Japanska jenið styrktist um 0,9% eftir þau umskipti sem urðu í japönskum stjórnmálum í gær þegar Lýðræðisflokkur Japans tók við völdum eftir rúmrar hálfrar aldar valdasetu Frjálslynda lýðræðisflokksins. Margir höfðu spáð hækkunum hlutabréfa í kjölfar þessara tíðinda, sem þó voru ekki óvænt, og í upphafi viðskipta hækkuðu þau um 1,5%. Þegar leið á daginn lækkuðu þau á ný og enduðu í 0,4% lækkun miðað við Nikkei 225 vísitöluna, að því er segir í frétt FT.

Ástæða lækkunar hlutabréfanna er vafalaust mikil lækkun í Sjanghæ í Kína, en þar lækkaði hlutabréfamarkaðurinn um 5,4% í dag eftir neikvæðar fréttir um afkomu fyrirtækja, minnkandi lánveitingar hins opinbera og minnkandi innflutning á hrávöru til að draga úr offramleiðslu í iðnaði.