Xbox 360 leikjatölvan frá Microsoft selst nú betur í Japan en PlayStation 3 leikjatalvan frá Sony.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters en þar kemur fram að Xbox 360 tók fram úr PlayStation tölvunni fyrir um tveimur vikum en framleiðendur leikjatölvanna notast gjarnan við sölutölur frá Japan til að gefa til kynna hvor tölvan sé nú vinsælli.

Microsoft seldi rúmlega 28 þúsund eintök af Xbox 360 í þar síðustu viku á meðan Sony seldi um 10.700 eintök af PlayStation 3 .

Mikil keppni hefur verið á milli framleiðandanna tveggja auk þess sem japanski framleiðandinn Nintendo hefur blandað sér í baráttuna um vinsælustu leikjatölvuna með Nintendo Wii leikjatölvuna.

Þá greinir Reuters frá því að Microsoft hafi á þessu ári lagt mikið kapp á að markaðssetja Xbox tölvuna í Japan og virðist nú vera að hafa árangur sem erfiði.

Nintendo Wiiber þó höfuð og herðar yfir hinum tölvunum þar sem rúmlega 40 þúsund eintök seldust af tölvunni á sama tíma. Nintendo selst þó ekki jafn vel í Bandaríkjunum og Evrópu.

NIntendo Wii hefur selst best allra leikjatölva í Japan frá því að hún var sett á markað undir árslok 2006 en tölvan þykir einföld og ódýr.

Forsvarsmenn Microsoft sögðu þó í samtali við Reuters vænta þess að sala á Xbox 360 tölvunni muni aukast það sem eftir lifir ársins og voru jákvæðir á framhaldið.