Japan hefur samþykkt að veita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lán að andvirði 60 milljarða bandaríkjadala. Sjóðurinn hefur undanfarið kallað eftir auknu fjármagni frá aðildarríkjum til að styðja við fjármál sjóðsins og tryggja að nægt fjármagn sé til staðar til að takast á við skuldavandann í Evrópu. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Eftir því sem vandinn á evrusvæðinu hefur versnað hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurft að veita fleiri ríkjum aðstoð. Skemmst er að minnast lána sjóðsins hingað til Íslands þó umsvifameiri aðstoð hafi þurft til ýmissa ríkja, t.a.m. Grikklands. Japan tilkynnti um lánin en sagðist jafnframt búast við því að fleiri ríki gerðu slíkt hið sama.