Heimasíðan Pinterest hefur tryggt sér 100 milljón dollara fjárfestingu frá japönsku vefversluninni Rakuten.

Á heimasíðu breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir forsvarsmönnum Rakuten að fjármagnið verði nýtt til að bæta þjónustu Pinterest og fjölga notendum. Pinterest er tveggja ára gamalt fyrirtæki og er nú metið á 1-1,5 milljarða bandaríkjadala.

Pinterest er einskonar rafrænn hugmyndaveggur. Þar geta notendur valið myndir og hugmyndir sem þeim eru að skapi og safnað saman. Vefinn má til dæmis nota við skipulagningu stórviðburða, s.s. brúðkaupa, við hönnun og hugmyndavinnu herbergja eða heimila og þá nota sumir vefinn sem rafræna uppskriftabók.

Segja má að Pinterest sé nýjasta internet æðið. Notendafjöldinn hefur vaxið hratt og eru notendur nú 12 milljónir. Vefurinn nýtur meðal annars töluverðra vinsælda hér á Íslandi.