Japanir íhuga nú alvarlega að draga sig út úr Alþjóða hvalveiðiráðinu (International Whaling Commission) að því er fram kemur í frétt The Independent. Haft er eftir sjávarútvegsráðherra Japans að staðið verði við þá hótun ef ráðið slakar ekki á alþjóðlegu banni við hvalveiðum í atvinnuskyni.

Alþjóða hvalveiðiráðið mun halda sinn árlega fund í Agadir í Morocco í næstu viku. Er búist við að á fundinum verði reynt að sætta sjónarmið hvalveiðiþjóða og þeirra þjóð sem hafa viljað banna hvalveiðar með öllu. Ef sættir takast má búast við að gefnar verði út takmarkaðar heimildir til hvalveiða í atvinnuskyni.

Hvalveiðibann Alþjóða hvalveiðiráðsins hefur verið í gildi í 25 ár, en Japanir ásamt Norðmönnum og Íslendingum hafa stundað hvalveiðar undir ýmsum undanþáguákvæðum. Í apríl var kynnt tillaga um að leyfa takmarkaðar veiðar í atvinnuskyni í tíu ár. Masahiko Yamada sjávarútvegsráðherra Japans gaf það sterklega í skyn í dag að Japan myndi draga sig út úr ráðinu ef ekki yrði slakað á hvalveiðibanninu. „Við erum að skoða ýmsa kosti,” sagði ráðherrann. „Þetta er raunverulega úrslitastundin og við erum ekki vissir um hvernig hlutirnir fara.”

Fulltrúar Nýja Sjálands og Ástralíu sem eru andvígir hvalveiðum hafa sagt að tillaga um að gefinn verði út hvalveiðikvóti sé algjörlega óásættanleg. Krefjast fulltrúar þessara ríkja að Japanir hætti með öllu hvalveiðum sínum á hvafsvæðum við Suðurheimskautið.

Hvalveiðiáætlun Japana gerir aftur á móti ráð fyrir  því sem kallaðar eru umfangsmiklar vísindarannsóknir  á suðurheimsskautssvæðinu á meðan aðrar hvalveiðiþjóðir eins og Norðmenn og Íslendingar halda sig að mestu við heimamið.