Japanski fjárfestingabankinn Nomura tilkynnti í dag að bankinn hefði keypt stóran hluta af starfssemi bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers í Evrópu og Mið-austurlöndun en eins og kunnugt er varð Lehman Brothers gjaldþrota í síðustu viku.

Fram kemur á fréttavef BBC að Nomura mun yfirtaka fjárfestingabankastarfssemi Lehman Brothers á fyrrgreindum svæðum auk þess að yfirtaka eitthvað af eignasöfnun bankans.

Í gær var greint frá því að Nomura hefði þegar yfirtekið hluta af starfssemi Lehman Brothers í Asíu.

Fram kemur að Nomura mun starfrækja fjárfestingabankastarfssemi Lehman Brothers undir eigin nafni, þ.e. Nomura.

Þá kemur fram að „allflestir“ starfsmenn Lehman Brothers á svæðunum haldi vinnu sinni eins og það er orðað í frétt BBC en um er að ræða 2.500 manns.

Talsmaður PricewaterhouseCoopers, endurskoðendafyrirtæki Lehman Brothers í Evrópu sagðist í samtali við fjölmiðla vera „hæstánægður“ með yfirtöku Nomura.

Þá er tekið fram að engar skuldir fylgja með í kaupunum.