Japönsk stjórnvöld hafa tilkynnt um að þau ætli að setja 49 milljarða dali, um 5.530 milljarða íslenskra króna, í neyðarsjóð til að takast á við afleiðingar jarðskjálftans og fljóðbylgjunnar sem reið yfir landið í mars. Upphæðin nemur tæplega einum fimmta þeirrar upphæðar sem japönsk stjórnvöld áætla að það muni kosta að endurreisa landið eftir hamfarirnar

Neyðarsjóðurinn á að létta undir með þeim svæðum sem urðu verst úti. Fyrir féð á meðal annnars að koma upp tímabundnu húsnæði og reisa við innviði verst förnu samfélaganna.

Japönsk stjórnvöld segja að sjóðurinn sé fjármagnaður með eigin fé, ekki frekari skuldabréfaútgáfu. Því sé ekki verið að bæta við þegar gríðarlega háar opinberar skuldir Japans.

Að minnsta kosti 27 þúsund manns létust eða hafa ekki fundist eftir jarðskjálftann sem skók Japan 11. mars síðastliðinn. BBC  hafði eftir Naoto Kan, forsætisráðherra Japan, að sjóðurinn gæti orðið sá fyrsti af fjölmörgum fjáraukum sem Japan þurfi til að borga fyrir endurreisn eftir skjálftann.