„Þau eru mjög spennt fyrir þessu,“ segir Bergþóra Ragnardóttir í leiguflugsdeild Flugfélags Íslands. Flugfélagið leigir japönsku ferðaskrifstofunni Club Tourism International Inc flugvél undir japanska ferðamenn sem vilja skoða norðurljósin. Fram kemur á vef flugfélagsins að þetta sé einstök ferð á heimsvísu. Hún felst í því að viðskiptavinir japönsku ferðaskrifstofunnar koma seint að kvöldi á Reykjavíkurflugvöll í október næstkomandi og í febrúar á næsta ári. Frá flugvellinum fara þeir í 60 mínútna leiguflug upp fyrir skýin til að skoða norðurljósin.

Vélarnar eru af Fokker-gerð og taka fimmtíu farþega.

Bergþóra segir í samtali við VB.is fleiri flug í sigtinu en þau tvö sem búið er að bóka.