Japanski drykkjavörurisinn Suntory Holdings hefur lagt fram yfirtökutilboð í bandaríska fyrirtækið Beam Inc, framleiðanda hins heimsþekkta viskís Jim Beam. Tilboðið hljóðar upp á 16 milljarða dala, jafnvirði tæpra 1.900 milljarða íslenskra króna. Breska dagblaðið Financial Times segir kaupin þau umfangsmestu síðan franska fyrirtækið Pernod Ricard's keypti Vin & Spirit, sænskan framleiðanda Absolut vodkans, fyrir 5,6 milljarða evra, sem svarar til 7,6 milljarða dala, árið 2008.

Verðið svarar til 20-falds rekstrarhagnaðar Jim Beam sem er sambærilegur margfaldari og þegar Pernod Ricard's keypti Vin & Spirit fyrir sex árum.

Á meðal drykkja undir hatti Beam Inc eru m.a. viskíin Laphroaig og Maker's Mark. Suntory á hins vegar Yamazaki og Hakushu ásamt Bowmore Scotch, Sauza tekíla og Pinnacle vodka.

Suntory er kannski lítið þekkt hér á landi. Fyrirtækið kom nokkuð við sögu í kvikmyndinni Lost in Translation. Hér að neðan má sjá bandaríska leikarann Bill Murray leika í auglýsingu Suntory í broti úr myndinni.