Að sögn Arnars Jónssonar, gjaldeyrissérfræðings hjá IFS ráðgjöf, er ljóst að gengi íslensku krónunnar mun ekki styrkjast fyrr en næsti skammtur af láni kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Veikleikin í vöruskiptunum er svo mikill að það tekur lengri tíma en áður var talið að styrkja krónuna. Vöruskiptin ættu til lengri tíma að skila þessu til styrkingar, meiri útflutningur og minni innflutningur. Það tekur hins vegar lengri tíma en síðan ætti að taka við hægfara styrking.“

Arnar sagði að skilaskylda á gjaldeyrismarkaði væri augljóslega ekki að virka sem skyldi og því væri spurning hvort ekki væri rétt fyrir yfirvöld að setja söluskyldu á. Það fælist þá í því að mönnum væri skylt að selja gjaldeyrir þegar hann kæmist í hendur þeirra en hann taldi augljóst að menn drægu það að skila inn gjaldeyri.

Arnar sagði að staðan á gjaldeyrismarkaði væri erfið þar sem Íslendinga vantaði augljóslega bakland í stærri gjaldeyrisforða. Hann taldi því að gengið myndi líkast til ekki styrkjast aftur fyrr en annar hluti lánsins frá AGS bærist.

Undanfarið hefur japanska jenið styrskt mikið og sagði Arnar að fjárfestar virtust leita þangað um leið og Bandaríkjadalurinn væri að veikjast. Fjárfestar væru stöðugt að leita að öruggri höfn og sem stendur virðast þeir sjá það í jeninu. Hann sagði að svissneski frankinn virtist einnig hafa sterka stöðu og sama mætti segja um norsku krónuna.