Japanska fyrirtækið Toshiba hefur samþykkt tilboð upp á 18 milljarða dollara í framleiðslu fyrirtækisins á minniskortum. Tilboðið kemur frá hópi fjárfesta sem er leiddur af japanska ríkinu. CNN greinir frá.

Toshiba hefur neyðst til þess að selja frá sér eignir til að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækisins eftir að hafa tapað milljörðum dollara á raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Hefur fyrirtækið gert ráð fyrir því að tap síðasta árs muni nema allt að 8,5 milljörðum dollara.

Toshiba er mikilvægt japönsku efnahagslífi þar sem fyrirtækið er með um 100 þúsund starfsmenn í vinnu og leikur lykilhlutverk í orkugeiranum og í samgöngum. Japönsk stjórnvöld vilja sýst af öllu missa störf fyrirtækisins úr landi. Greindi Toshiba frá því að ein af ástæðum þess að tilboði japönsku fjárfestana hefði verið samþykkt hafi verið sú að fyrirtækið vildi halda störfum og tækniþekkingu innan Japan.