Nú þegar fjárfestar eru enn að leita að öruggri höfn, þá hækkaði japanska yenið eins og svo oft áður. Er það nú búið að ná sýnu hæsta gengi síðan niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi var ljós, og var það komið í 101,74 yen fyrir dalinn seint á þriðjudag, en í dag er það komið í 100,23 yen fyrir hvern Bandaríkjadal.

Á sama tíma og japanska yenið hækkar í verðgildi, féll ávöxtunarkrafa japanskra ríkisskuldabréfa. Fyrir 20 ára ríkisskuldabréf varð ávöxtunarkrafan í fyrsta sinn neikvæð á tímabili miðvikudag, og fyrir 30 ára bréf var ávöxtunarkrafan einungis 0,015%

Kínverska yuanið lægra en ætti að vera

Í Kína greip seðlabankinn inní og lækkaði gengi þess um 0,4% gagnvart Bandaríkjadal. Var kínverska yuan-ið sett í 6,6857 á móti Bandaríkjadal, sem er veikasta gengi þessi síðan í nóvember 2010. Á meginlandi Kína þar sem gengið getur sveiflast um 2% uppfyrir eða niðurfyrir ákvörðunargengi seðlabankans, þá var gengið að minnsta kosti 0,2% veikara eða á genginu 6,69 dalir.

En í Hong Kong þar sem frjáls verslun er með gjaldmiðilinn, þá lækkaði gengi hans um 0,3% í 6,7055 gagnvart dalnum.

Patric Bennet, yfirmaður hjá CIBC í Hong Kong segir að kínverski seðlabankinn hafi lagt sig fram um að lækka gengi yuansins og gert meira í því undanfarið en áður. „Með jákvæðum vöruviðskiptaafgangi myndi maður búast við því að kínverska yuanið myndi hækka í verðgildi, en það er það alls ekki,“ sagði hann.