Japanski Seðlabankinn leitar nú leiða til að sporna gegn efnahagslægð í kjölfar jarðskjálftans þar í landi. Bankinn dældi jafnvirði 183 milljarða dala inn á fjármálamarkaði í dag. Þá voru kaup samkvæmt áætlun tvöfölduð að stærð, að því er Bloomberg fréttastofa greinir frá.

Innspýtingin í dag á að stuðla að fjármálastöðugleika í landinu, eftir að hlutabréf féllu í verði við opnun markaða í dag. Nikkei vísitalan féll um 5% við opnun.

Ljóst þykir að til skamms tíma mun framleiðsla dragast saman í Japan vegna jarðskjálftans og hafa stórfyrirtæki í Japan, þar á meðal Sony og Toyota, lokað verksmiðjum sínum tímabundið. Toyota hyggst hefja framleiðslu aftur á miðvikudag. Seðlabankinn óttast ekki síður verðhjöðnun í kjölfar skjálftans og er aukning lausafjár í umferð liður í að sporna gegn henni.