Kaupin á hinum nýja bor Jarðborana, Geysi, munu hafa mikið að segja um útrásarmöguleika fyrirtækisins í framtíðinni. Í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag segir Bent S. Einarsson, forstjóri félagsins, að ekki hafi verið unnt að sinna stærri sóknarfærum erlendis til þessa. Hins vegar sé mikilvægt að sækjast eftir verkefnum ytra, bæði til að efla verkefnastöðu fyrirtækisins og ekki síður til að jafna hana á ársgrundvelli. "Það kemur skýrt fram í stefnumiðum samstæðunnar að við störfum á alþjóðlegum vettvangi og að fyrirtækið gerir tilkall til þess að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingar á sínu sviði," segir bent í Viðskiptablaðinu í dag.

Það var fyrirtækið Soilmec í borginni Piacenza á Ítalíu sem hannaði og framleiddi Geysi í nánu samráði við sérfræðinga Jarðborana, sem áttu fyrir tvo bora frá sama framleiðanda, Sleipni og Sögu, en kaupverð nýja borsins ásamt fullum búnaði var um 600 milljónir kr. "Við komum talsvert inn í alla hönnun á Geysi og höfðum einnig mikið að segja um frágang á honum. Það má því segja að þessi bor hafði verið byggður í miklu og nánu samstarfi við tæknimenn Jarðborana. Þess vegna verður sérlega áhugavert að sjá hvernig hann reynist við þær fjölbreytilegu aðstæður sem bíða hans, bæði hvað varðar breytilegar þarfir viðskiptavina og ekki síst þar sem jarðlög geta verið gríðarlega erfið viðureignar og að vissu marki óútreiknanleg." Að sögn Bents hafa Jarðboranir og Soilmec ákveðið að hafa með sér frekara samstarf sem gæti mögulega skilað gagnkvæmum ávinningi í framtíðinni varðandi hönnun og markaðsstarf.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.