Pólska olíu- og gasleitarfyrirtækið Jaslo Ltd. og Iceland Drilling (UK) Ltd., dótturfélag Jarðborana, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á alþjóðlegum vettvangi. Viðræður fyrirtækjanna höfðu leitt til þeirrar niðurstöðu að þau hefðu verulegan áhuga á að taka upp náið samstarf með sókn á nýja markaði og sameiginlega aðkomu að þeim í brennipunkti. Grundvöllur samstarfsins væri gagnkvæmur ávinningur beggja.

Iceland Drilling (UK) sérhæfir sig í háhitaborunum en Jaslo fæst einkum við boranir  eftir olíu og gasi, auk þess að þjónusta slíkar borholur. Með væntanlegu samstarfi má samnýta sérþekkingu fyrirtækjanna tveggja, borflota og reynslu starfsmanna til markaðssóknar utan núverandi markaðssvæða, einkum á sviði vaxandi markaðar fyrir jarðhitaboranir. Þess er vænst að fyrirtækin tvö taki upp virkt samstarf eigi síðar en á næsta ári.