Jarðboranir hf. hafa fest kaup á öllu hlutafé í verktakafyrirtækinu Sæþóri ehf., ásamt tækjakosti og búnaði, segir í tilkynningu.

Kaupverðið fyrir Sæþór er 310 milljónir króna. Áætluð velta ársins 2006 eru um 240 milljónir króna og áætluð EBITDA um 100 milljónir. Vaxtaberandi langtímaskuldir félagsins eru engar og nettó veltufjárliðir eru engir.

Rekstur Sæþórs mun heyra undir starfsemi Björgunar, dótturfélags Jarðborana. Verkefni Sæþórs eru einkum á sviði hafnardýpkunar en auk þess hefur fyrirtækið m.a. látið að sér kveða við hafnargerð, vega- og brúargerð, viðhaldsframkvæmdir á mannvirkjum og framkvæmdir fyrir orkuveitur.

Sterkari samstæða

Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, segir að með kaupum á Sæþóri sé verið að framfylgja þeirri stefnu fyrirtækisins að eflast bæði að innri og ytri vexti. ?Við teljum kaupin á Sæþóri rökrétta fjárfestingu sem falli í senn vel að starfsemi Björgunar og samstæðu Jarðborana í heild. Við erum einfaldlega að skjóta nýrri og áhugaverðri stoð undir reksturinn og auka breiddina í þjónustunni." Bent segir að um samlegðaráhrif verði að ræða, þar sem aukin hagkvæmni náist m.a. með samnýtingu vinnuafls, fasteigna og tækja. Jafnframt segir hann vert að benda á verðmæti sérþekkingar og reynslu starfsfólks Sæþórs sem gefi möguleika á frekari þróun starfseminnar.

Starfsfólkið ráðið áfram

Að sögn Bents er ekki stefnt að neinum grundvallarbreytingum á starfsemi Sæþórs. Hann telur ótvíræðan styrk í því að núverandi starfsfólk verði áfram hjá fyrirtækinu og kveðst hlakka til að vinna með því öfluga fólki sem þar starfar.

"Við metum mikils reynslu og þekkingu starfmanna Sæþórs og lögðum strax áherslu á að starfsólkið yrði hér áfram eftir eigendaskiptin enda ætlum við fyrirtækinu að vaxa og dafna. Það er einnig fagnaðarefni að framkvæmdastjórinn og fyrri aðaleigandi, Sveinbjörn Runólfsson, mun starfa með okkur næstu mánuði."

Jarðboranir

Jarðboranir er leiðandi fyrirtæki í nýtingu jarðvarma og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingar á sínu sviði. Fyrirtækið er forystufyrirtæki á alþjóðamarkaði um öflun jarðvarma, einkum á sviði háhita. Jarðboranir er í eigu Atorku Group hf. sem er skráð í Kauphöll Íslands.