Tvö tilboð bárust í boranir á Hellisheiði og Hengislsvæðinu. Tilboðin eru frá Jarðborunum hf. að upphæð tæplega 7,8 milljarða króna og frá ÍAV/Ístak að rúmlega 8,3 milljarða króna. Kostnaðaráætlun ráðgjafa Orkuveitu Reykjavíkur nam tæplega 10 milljörðum króna.

Þetta verk er langmesta einstaka borverkefni, sem ráðist hefur verið í hérlendis og stærsta útboð Orkuveitunnar til þessa. Um er að ræða 30 háhitaholur, bæði rannsóknarholur og vinnsluholur, 10 niðurrennslisholur, fimm holur til þess að afla ferskvatns og 13 svelgholur.

Á Stóra- Skarðsmýrarfjalli er fyrirhugað að bora 15-20 háhitaholur en vegna þess, að borsvæðið er í um 550 metra hæð yfir sjó er ekki hægt að reikna með nema 5-6 mánaða framkvæmdatíma á ári. Önnur borsvæði eru á Ölkelduhálsi, í Hverahlíð, á núverandi gufuöflunarsvæði virkjana og annars staðar á Hellisheiði/Hengilssvæði fyrir rannsóknarholur.