Jarðboranir, sem eru hluti Atorka Group, hafa ásamt dótturfélaginu Iceland Drilling (UK) Ltd. undirritað samning við orkufyrirtækið GeoTerceira. Samningurinn er sá stærsti sem Jarðboranir hafa gert vegna verkefna á erlendri grund en upphæð samningsins nemur um 500-700 milljónum króna.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að rannsóknir sem farið hafa fram á eyjunni hingað til eru mjög jákvæðar og gefa vísbendingu um að þarna sé um gjöfult háhitasvæði að ræða. Gangi þær væntingar eftir, liggur fyrir að framkvæmdum verður haldið áfram með hléum fram á árið 2008, en Jarðboranir ráðgera að hefja boranir samkvæmt samningnum nú í haust. Samningurinn er um borun á rannsóknar- og vinnsluholum til undirbúnings háhitavirkjun á eyjunni Terceira á Azoreyjum.

Aðkoma Evrópusambandsins

Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, segir að fyrirhugað sé að nýta orkuna á eyjunum á sem fjölbreyttastan hátt og m.a. hafi verið ákveðið að tvöfalda framleiðslu á vistvænni orku á árinu 2007. Stefnt sé að enn frekara samstarfi orkufyrirtækja á eyjunum og Jarðborana þar sem litið verði sérstaklega til fjölnýtingar jarðhita og reynslu Íslendinga þar að lútandi. Bent bendir ennfremur á að jarðhitaverkefni á Azoreyjum hafi verið kostuð af Evrópusambandinu í ljósi þess að um sé að ræða raunhæfar leiðir til að auka sjálfbærni eyjanna um framboð á umhverfisvænni orku.

Þolinmæðin að skila sér

Að sögn Bents er samningurinn áfangi á þeirri leið að ná varanlegri fótfestu erlendis. ?Það má segja að við séum að uppskera þolinmæði í markaðsstarfi á Azoreyjum. Þarna höfum við sinnt ýmsum verkefnum frá árinu 1992 og í fyrstu voru verkefnin það smá að við vorum út af fyrir sig ekki að hagnast mikið á þeim. Hins vegar vorum við að sanna okkur fyrir heimamönnum, ávinna traust þeirra og fjárfesta í reynslu á svæðinu. Ef við viljum tala um fórnarkostnað í byrjun hefur hann greinilega skilað sér til baka, því að í heild nemur verðmæti þeirra samninga sem við höfum gert þarna á þriðja milljarð króna."

Orka fyrir Bandaríska herinn

Fyrirhugað er að nýta háhitann, sem aflað verður á Treceira, til raforkuframleiðslu en gert er ráð fyrir að þarna verði reist 12 MW gufuaflstöð árið 2009 sem muni sjá um 37% af raforkuframleiðslu á eyjunni. Bandaríski flugherinn, sem hefur aðsetur á Terceira og notar um 20% raforku á eyjunni, verður að líkindum einn stærsti kaupandinn en bandarískur her hefur haft aðsetur þarna allt frá heimsstyrjöldinni síðari.

Spennandi verkefni
Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Iceland Drilling (UK), segir að alls muni 25 manns vinna að borframkvæmdunum á Terceira og verði um helmingur þeirra Íslendingar. ?Háhitasvæðið þarna er um miðbik eyjarinnar og virðist mjög vænlegt. Líklega förum við niður á niður á um 1.500 m dýpi að þessu sinni en fyrstu rannsóknarholur á eyjunni sem voru boraðar 2003 og 2004 voru aðeins um 600 m djúpar. Þá mældist hitinn um 240° og við vonumst að sjálfsögðu eftir enn hærri hitatölum nú."

Stórefldur tækjafloti
Í sumar er von á nýjum, stórum hátæknibor í flota Jarðborana og verða þar með tveir stærstu landborar á Norðurlöndum í eigu félagsins. Ljóst að með endurnýjuðum tæknibúnaði er fyrirtækinu kleift að taka stærri skref í útrás erlendis. Þar koma bæði til tæknileg fjölhæfni og aukin afkastageta borflota Jarðborana í heild, ekki síst við þær aðstæður þegar ráðast þarf í umfangsmikil verkefni hér heima og erlendis á sama tíma, en verkefni hér heima munu ná sögulegu hámarki á þessu ári.