Á Norðurlandi er hægt að heimsækja ýmsa baðstaði, þar á meðal eru Jarðböðin við Mývatn og Sjóböðin á Húsavíkurhöfða. Góður taktur er í rekstri Jarðbaðanna og skiluðu þau 313 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Sjóböðin hófu rekstur fyrir tæplega ári síðan og er því fyrsta heila rekstrarár þeirra í fullum gangi.

Baðstaðir njóta sífelldra vinsælda hér á landi, þá sérstaklega meðal ferðamanna. Augljósasta dæmi um þetta er velgengni Bláa lónsins. Á Norðurlandi má einmitt finna tvo álíka baðstaði; Jarðböðin við Mývatn og Geo Sea sjóböðin á Húsavíkurhöfða. Jarðböðin við Mývatn, sem eru við Jarðbaðshóla, um 4 km frá Reykjahlíð, voru opnuð sumarið 2004. Rekstrarsaga Sjóbaðanna er nokkuð styttri, en rekstur þeirra hófst í september á síðasta ári.

922 milljóna króna velta Jarðbaðanna

Jarðböðin við Mývatn högnuðust um 313 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 21 milljón frá fyrra ári. Velta Jarðbaðanna nam 922 milljónum króna og jókst veltan um 101 milljón á milli ára. Þá námu rekstrargjöld 542 milljónum króna og jukust þau um 21% á milli ára.

Eignir Jarðbaðanna námu rúmlega 1,3 milljörðum í árslok 2018 og skuldir námu 127 milljónum króna og lækkuðu um 37 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé félagsins nam 1,2 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall því 91% á síðasta degi ársins 2018. Laun og launatengd gjöld námu 236 milljónum og jukust um 29 milljónir króna á milli ára, en ársverk voru 27 á síðasta ári samanborið við 24 árið áður.

Fjárfestingafélagið Tækifæri ehf., sem fjárfestir í nýsköpun á Norðurlandi, er stærsti hluthafi Jarðbaðanna með tæplega 44% hlut í sinni eigu. Samkvæmt ársreikningi félagsins er hluturinn í Jarðböðunum verðmætasta eign þess, en hluturinn er metinn á 2,018 milljarða króna. Samkvæmt því eru Jarðböðin metin á rétt ríflega 4,6 milljarða króna. Tækifæri er að mestu leyti í eigu KEA svf., sem á 72% hlut. Þá á Stapi lífeyrissjóður 15% og Íslensk verðbréf 9%.

2019 fyrsta heila rekstrarár Sjóbaðanna

Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá þá töpuðu Sjóböð ehf., sem rekur GeoSea sjóböðin á Húsavíkurhöfða, tæplega 17 milljónum króna á síðasta ári að því er kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018. Líkt og áður hefur komið fram hófst rekstur Sjóbaðanna í september á síðasta ári og núverandi ár verður því fyrsta fulla rekstrarár Sjóbaðanna.

Sala Sjóbaðanna nam 54 milljónum króna á síðasta ári og rekstrargjöld námu 67 milljónum. Eignir Sjóbaðanna námu 815,5 milljónum króna í lok síðasta árs og skuldir námu 639,7 milljónum. Þá var eigið fé Sjóbaðanna 175,8 milljónir í lok síðasta árs.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnulíf á Norðurlandi sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .