Jarðboranir hf. fengu 1.500 milljónir króna afskrifaðar af lánum fyrirtækisins hjá Íslandsbanka á síðasta rekstrarári. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Jarðboranir högnuðust um 278 milljónir króna á árinu, líkt og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá . Dróst hagnaðurinn saman um 289 milljónir króna á milli ára.

Í ársreikningnum kemur fram að veruleg breyting hafi orðið á samningi við Íslandsbanka um niðurfellingu á hluta af langtímaskuldum þess. Samkvæmt samkomulaginu voru 1,5 milljarðar króna afskrifaðir af skuldum fyrirtækisins. Samkomulagið fól einnig í sér að hluthafar leggðu félaginu til aukið hlutafé upp á 300 milljónir króna.

Stjórnendur Jarðborana segja að áhrif samkomulagsins hafi verið færð í ársreikninginn þar sem þeir telji að færslan gefi skýrari mynd af fjárhagslegri stöðu og framtíðarhorfum fyrirtækisins.

Ef eftirgjöf þessara 1.500 milljóna króna hefði ekki komið til er ljóst að tap félagsins hefði numið 1.222 milljónum króna á árinu.