„Við erum ekki að okra á viðskiptavinum okkar. Þetta er mjög gott tilboð, sem við unnum af heilindum. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar svo kostnaður verði viðunandi,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, forstjóra Jarðborana, um tilboð félagsins í boranir fyrir Landsvirkjun í Bjarnarflagi vegna fyrirhugaðra stórframkvæmda á Norðausturlandi.

Tilboð í boranir í Bjarnarflagi voru opnuð á fimmtudag í síðustu viku og var tilboð Jarðborana það eina sem barst í verkið. Það hljóðaði upp á 1,1 milljarð króna og var 27% undir kostnaðaráætlun Landsvirkjunar. Ágúst bætir við að þótt ekki hafi verið samkeppni um verkið þá vilji Jarðboranir ekki misnota aðstöðuna.

Ágúst Torfi Hauksson forstjóri Jarðborana.
Ágúst Torfi Hauksson forstjóri Jarðborana.
© None (None)

Nær allur rekstur Jarðborana fluttist úr landi fyrir þremur árum og koma nær allar tekjur fyrirtækisins erlendis frá. Stærsta verkefni fyrirtækisins, tvær boranir, er á Nýja Sjálandi og eru þar sextíu manns á vegum fyrirtækisins, um helmingur starfsmanna Jarðborana. Þá er fyrirtækið með stór verkefni í Danmörku og á Karabísku eyjunum, svo sem í Dóminíska lýðveldinu. Þá hafa Jarðboranir verið með verkefni á Azor-eyjum síðastliðin þrjú ár. Verkefni lauk þar í lok ágúst og er verið að flytja bor sem þar var notaður hingað. Hann er væntanlegur hingað til lands um næstu helgi.

Ágúst segir Jarðborunum mikilvægt að horfa til heimamarkaðar. Sé það ekki gert er hætt við að stjórnendur missi fókus. Ágúst gerir ráð fyrir því að boranir í Bjarnarflagi hefjist í haust.

Var í eigu Atorku - nú Samherja og sjóða

Jarðboranir voru hluti af fyrirtækjasafni Atorku fyrir hrun. Félagið seldi Geysi Green Energy félagið undir lok sumars 2007. Eftir hrunið haustið 2008 tók Miðengi, félag Íslandsbanka sem heldur utan um fyrirtæki sem falla bankanum í skaut, félagið yfir. Íslandsbanki seldi 82% hlut sinn í félaginu í byrjun þessa árs. Kaupendur voru SF III, sjóður sem Stefnir, dótturfélag Arion banka, rekur. Eigendur sjóðsins eru Festa lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Samherji og Stefnir - íslenski athafnasjóðurinn. Greint var frá því í upphafi árs að bankinn ætli að halda eftir 18% hlut í Jarðborunum.