Jarðboranir hafa sagt upp fimm konum innan fyrirtækisins. Konunum var tilkynnt um þetta í morgun og var gert að hætta á staðnum samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Um er að ræða stóran hluta af þeim konum sem starfa innan fyrirtækisins en engum karlmönnum var sagt upp. Andrúmsloftið innan fyrirtækisins eftir að uppsagnirnar voru tilkynntar var lýst sem sláandi af viðmælanda Viðskiptablaðsins.

Ekki hefur reynst unnt að ná í Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformann Jarðborana sem átti að taka tímabundið við stóli forstjóra fyrirtækisins eftir að Ágúst Torfi Hauksson lét af störfum fyrr í vikunni.  Þá hafði hann starfað í um átta mánuði hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið tapaði rúmlega milljarði króna í fyrra en það var selt frá Íslandsbanka til SF III slhf., félag í rekstri Stefnis hf., í janúar á þessu ári.

Uppfært: Baldvin Þorsteinsson var ekki tilbúinn að tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum.