Umhverfisvænasti og um leið öflugasti bor Jarðborana var tekin formlega í notkun við Reykjanesvirkjun HS Orku í dag. Borinn kemur frá Þýskalandi og kostaði um 23 milljónir evra, tæpa 3,8 milljarða króna. Við það tækifæri gaf Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, bornum heitið Þór. Borinn er fyrsti háhitaborinn á Íslandi sem er knúinn af rafmagni en fram til þessa hafa borar Jarðborana eingöngu notað díselolíu.

Fram kemur í tilkynningu frá Jarðborunum að Þór geti borað lengri stefnuboraðar holur en fyrri borar auk þess að með honum er hægt að bora fleiri en eina holu frá sama stað. Það minnkar einmitt jarðrask á borsvæðum til muna.

Þór er af gerðinni Euro Rig 350 t og kemur lítið notaður frá Þýskalandi en hann var áður í eigu dótturfélags Jarðborana.

Fyrsta verkefni Þórs er fyrir HS Orku á Reykjanesi þar sem hann verður notaður við gufuöflun fyrir Reykjanesvirkjun.

Mikið í gangi

Jarðboranir voru talsvert í fréttum í síðustu viku. Greint var frá því á mánudag að Ágúst Torfi Hauksson hafi hætt sem forstjóri fyrirtækisins eftir nokkra mánaða setu í forstjórastólnum. Þá sagði fyrirtækið upp fimm konum á föstudag.