Eigendur þriggja jarða á Vatnsleysuströnd hafa stefnt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þeir krefjast þess að ákvörðun um eignarnám jarða þeirra verði ógild. Fréttastofa Ríkisútvarpsins ( RÚV ) segir eigendur þriggja jarða til viðbótar undirbúa sambærileg dómsmál.

Lögmaður landeigenda segir í samtali við RÚV að sömuleiðis hafi verið höfðað dómsmál til að reyna að fá ógilda leyfisveitingu Orkustofnunar. Landsnet hafi óskað eftir því við matsnefnd eignarnámsbóta að fyrirtækið fái umráð yfir hinu landinu sem tekið var eignarnámi svo hægt sé að hefja þar framkvæmdir.