Verð á jarðgasi og raforku í Evrópu hefur náð nýjum hæðum samhliða auknum áhyggjum af framboðsskorti, en jarðgasbirgðir Evrópu hafa ekki verið lægri á þessum árstíma í yfir áratug. Framvirkir samningar með gas hækkuðu um allt að 15% í morgun í Hollandi og Bretlandi.

Skortur á gasi og kolum um allan heim hefur valdið miklum verðhækkunum á raforku, sem aftur hefur valdið truflunum á mörkuðum, sem margir eru loks að taka við sér eftir heimsfaraldurinn.

Mörg fyrirtæki eru í umfjöllun Bloomberg sögð íhuga að draga úr eða hætta framleiðslu, og neytendur leiti að öðrum aflgjöfum.

Haft er eftir dönskum miðlara að útlit sé fyrir frekari hækkanir í vikunni. „Markaðir eru afar taugatrekktir yfir mögulegum skorti í vetur.“

Sagt var frá því í gær að Rússland væri að klára undirbúning sinn fyrir umdeilda gaslögn sína til Þýskalands, sem alla jafna ætti að valda verðlækkunum, enda von á auknu framboði. Framboð frá Rússlandi hefur hinsvegar verið takmarkað nýverið.