Jarðskjálfti af stærðargráðunni 7,3 á Richter skalanum varð um 430 kílómetrum undan strönd Banda Aceh á eyjunni Súmötru í Indónesíu fyrir skömmu. Ekki er meira vitað að svo stöddu, en greint var frá þessu á fréttavef Bloomberg.

Árið 2006 létust á sjötta hundrað manna á eyjunni Java þegar jarðskjálfti varð um 360 kílómetra undan strönd höfuðborgarinnar Jakarta á eyjunni Java. Flestir létust vegna flóðbylgju sem gekk yfir suðurströnd eyjarinnar eftir jarðskjálftann. Árið 2004 létust svo á þriðja hundrað þúsund manns í 14 löndum þegar jarðskjálfti af stærðargráðunni 9,1-9,3 stig varð á sama svæði. Banda Aceh varð sérstaklega illa úti eftir flóðbylgjuna sem gekk yfir borgina eftir þann skjálfta.