Kostnaður vegna jarðskjálftans í Japan gæti orðið allt að 200 milljarðar dala, jafnvirði um 23.200 milljarða íslenskra króna. Flestir sérfræðingar telja að kostnaðurinn verði á bilinu 150 til 200 milljörðum dala, að því er kemur fram í frétt Reuters. Efnahagur Japans er sá þriðji stærsti í heiminum. Til samanburður nam landsframleiðsla Íslands á síðasta ári rúmum 1500 milljörðum króna.

Búist er við skörpum samdrætti í landsframleiðslu vegna sjálftans sem mun koma fram strax á öðrum ársfjórðungi. Þó er búist við að efnahagur muni taka við sér að nýju strax á síðari hluta ársins, þegar uppbygging hefst af fullum krafti.

Kauphöllin í Japan hefur sveiflast mikið í vikunni og féll Nikkei 225 hlutabréfavísitalan um 16% fyrstu viðskiptadagana eftir skjálftann. Markaðurinn tók nokkuð við sér í dag og nam hækkunin tæpum 6%. Gærdagurinn var sá þriðji versti í sögu kauphallarinnar í Tokyo. Þá lækkaði Nikkei 225 vísitalan um rúmlega 10%, eða 626 milljarða dala að markaðsvirði.