Vegferð stjórnvalda í sóttvarnamálum hefur leitt þau inn á „jarðsprengjusvæði mannréttinda“ og gefur fullt tilefni til að meta hvort rétt sé að hægja á förinni. Ólund þeirra gagnvart úrskurði héraðsdóms í sóttvarnahússmálinu sýnir einnig skilningsleysi í garð leikreglna lýðræðisins.

Þetta er meðal þess kom fram í framsögu lögmannsins Reimars Péturssonar á hádegisfundi Lögmannafélags Íslands og Lögfræðingafélags Íslands þar sem úrskurðirnir voru til umræðu. Sem kunnugt er tók gildi undir lok síðasta mánaðar skylda til að afplána sóttkví í sóttvarnahúsi við komu til landsins ef fólk kom frá svokölluðum „rauðum löndum“. Vistin var kærð til héraðsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að reglugerðin hefði verið sett í andstöðu við lög. Reimar var einn þeirra lögmanna sem flutti umrædd mál.

Í máli Reimars kom hann inn á lögmætisregluna og benti á að í henni fælist að borgararnir væru frjálsir en ríkisvaldið bundið. Kjörnir fulltrúar, sem vilja halda starfi sínu að kjörtímabili liðnu, vanda sig vanalega við að halda sig innan þess ramma enda er viðbúið að kjósendur muni ella kjósa þá brott. Erfiðara sé aftur á móti að kjósa stjórnvöld burt. Það væri síðan dómstóla að skakka leikinn ef stjórnvöld aðhafast eitthvað í andstöðu við lögmætisregluna. Ólund stjórnvalda í garð úrskurðanna sýndi, að hans mati, „skilningsleysi gagnvart leikreglum lýðræðisins“.

„De facto“ einangrunarvist

„Að mínu mati hafa dómstólar hitt á réttan tón í málinu. Um framhaldið er aftur á móti vandasamt að spá. Löggjafinn getur aftur á móti brugðist við með lagasetningu,“ sagði Reimar. Benti Reimar þó á að við slíkar aðgerðir yrði mögulega hoggið nærri stjórnarskrárvörðum réttindum.

„Vistun í sóttvarnahúsi felur í sér frelsissviptingu fólks, sem ekkert hefur gert af sér, svo dögum skiptir. Það er gríðarlega íþyngjandi ráðstöfun, sér í lagi þegar um börn er að ræða. Þegar litið er til þess að fólki er bannað að fara undir bert loft þá er um de facto einangrunarvist að ræða. Slíkt snýst ekki aðeins um lögmæti heldur einnig kjarna mannréttindareglna og hvort brotið sé gegn jafnræði og meðalhófi,“ sagði Reimar.

Benti hann á að hjá Mannréttindadómstól Evrópu og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefði komið fram, þá í málum er varða innflytjendur, að frelsissvipting barna eigi aldrei að eiga sér stað nema það séu hagsmunir þeirra sem þar ráða för og öll önnur möguleg úrræði séu tæmd. Gildi þá einu hvort foreldrar séu með í för. Um algjört neyðarúrræði sé að ræða.

„Sú frelsissvipting, sem mælt var fyrir í reglugerðum, á grundvelli meðaltala smitafjölda, rímar ekki vel við sjónarmið sem birtast í þessari framkvæmd,“ sagði Reimar. Benti hann á að á mat á meðalhófi hefði ekki reynt í málunum nú en það kynni að gerast seinna meir. „Að mínu viti eru stjórnvöld komin inn á jarðsprengjusvæði mannréttinda. Það ætti að gefa þeim tilefni til að hægja á för. Löggjafinn verður að huga vel að málum ef lögfesta á heimildir til þessa aðgerða.“

Sóttvarnalæknir er ekki stikkfrí

Í umræðunni eftir úrskurði héraðsdóms hafa spjótin í einhverjum tilfellum beinst að sóttvarnalækni. Ýmsir hafa komið honum til varnar og bent á að það sé ekki hans að setja reglugerðirnar, það geri heilbrigðisráðherra á grundvelli leiðsagnar í minnisblöðum hans. Að mati Reimars getur það ekki leyst hann undan ábyrgð og minntist í því samhengi Landsréttarmálsins. Þar hefði það ekki fríað dómsmálaráðherra að þingið hefði seinna meir fjallað um gallaðar tillögur hans.

„Hið sama gildir um sóttvarnalækni. Hann er stjórnvald og handhafi framkvæmdavalds sem slíkt. Það leysir hann ekki undan ábyrgð þótt ráðherra fjalli síðar um tillögur hans. Í sóttvarnalögum er kveðið á um að aðgerðir eigi að samrýmast meðalhófi og taka tillit til þeirra hagsmuna sem undir eru. Þrátt fyrir það er sjaldnast fjallað um slíkt í minnisblöðum sóttvarnalæknis,“ sagði Reimar.

Rétt væri að í minnisblöðunum kæmi fram skilgreining á markmiði sem að væri stefnt, í kjölfarið fjallað um mismunandi leiðir og úrræði til að ná því markmiði og kostir og gallar hverrar fyrir sig metnir. Að því loknu bæri að velja þá vægustu sem til greina getur komið.

„Í einhverjum tilvikum er skiljanlegt að slíkt mat sé ekki til staðar. Til að mynda ef bráð ógn er til staðar, smit eru mörg og álag á heilbrigðiskerfinu mikið. Aftur á móti er slíkt síður skiljanlegt ef smit eru fá, álag á kerfið viðráðanlegt og veiran er lítið að dreifa sér,“ sagði Reimar.

Þegar svo væri í pottinn búið væri mikilvægt að útskýra markmið aðgerða, skýra hvað réttlæti að takmarka ferðalög, íþróttaæfingar barna, opnun sundlauga og líkamsræktarstöða og svo framvegis.

„Málið er margslungið og flókið en þegar kemur að gríðarlega íþyngjandi aðgerðum gæti skortur á rökstuðningi og umfjöllun um meðalhóf skipt máli,“ sagði Reimar. „Að endingu hvet ég stjórnvöld og löggjafann til að vanda störf sín í næstu skrefum. Allt annað er til þess fallið að grafa undan lýðræðislegum stjórnarháttum og þeim markmiðum sem standa undir.“