Í kerfisáætlun Landsnets 2014-2023 sem birt var í dag kemur fram að ekki sé raunhæft að byggja upp meginflutningskerfi raforku með jarðstrengjum. Hins vegar gæti verið raunhæft að leggja jarðstrengi á ákveðnum köflum flutningskerfisins.

Í fyrsta sinn fer kerfisáætlunin í gegnum feril umhverfismats áætlana. Kerfisáætlunin er endurskoðuð á hverju ári og er gert ráð fyrir að umhverfisskýrslan verði endurskoðuð samhliða. Umhverfismatið lagði fram nauðsynlegar upplýsingar fyrir framtíðarákvarðanir um jarðstrengi sem snúa að því að skilgreina við hvaða aðstæður mikilvægt sé að skoða jarðstreng sem valkost. Auk þessara upplýsinga mun fljótlega liggja fyrir stefna stjórnvalda um jarðstrengi sem mun hafa áhrif á þá valkosti sem verða til skoðunar.

Alls bárust ábendingar og athugasemdir frá 23 aðilum við drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunar sem kynnt voru á tímabilinu 7. maí til 18. júní síðastliðinn. Svör Landsnets og viðbrögð liggja nú fyrir og eru birt í sérstöku skjali á heimasíðu fyrirtækisins.