*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 4. september 2016 13:10

Jarðvarmi á að skila 865 megavöttum

Raforkuframleiðsla á Íslandi skilar í dag 2.750 megavöttum og mun hún aukast um 52% samkvæmt rammaáætlun.

Trausti Hafliðason

Samanlagt afl þeirra átján virkjunarkosta sem eru í orkunýtingarflokki 3. áfanga rammaáætlunar nemur 1.421 megavatti (MW). Uppsett afl allra virkjana landsins í dag nemur um 2.750 megavöttum, sem þýðir að ef allir kostir í nýtingarflokki verða að veruleika mun raforkuframleiðsla í landinu aukast um tæp 52%.

Af þeim átján kostum sem nú eru í orkunýtingarflokki eru níu vegna gildandi rammaáætlunar og einn vegna sérstakrar afgreiðslu Alþingis sumarið 2015 (Hvammsvirkjun). Þetta þýðir að verkefnastjórn 3. áfanga rammaáætlunar leggur til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk. Samanlagt afl þessara átta nýju kosta nemur 657 megavöttum. Samkvæmt afgreiðslu nefndarinnar er ljóst að á næstu árum verður megináhersla lögð á jarðvarmavirkjanir því af átján kostum eru tíu jarðvarmavirkjanir, sem eiga samtals að skila 865 megavöttum. Til samanburðar eiga sjö vatnsaflsvirkjanir að skila 465 megavöttum og vindmyllur 100.

Þó gögn um virkjanakosti segi að þau geti skilað 1.421 megavatti er nauðsynlegt að setja ákveðna  fyrirvara við þá tölu. Sem dæmi þá eiga margir kostir eftir að fara í umhverfismat og í sumum tilfellum á eftir að rannsaka þau jarðvarmasvæði sem tilgreind eru og því óljóst hvað þau muni skila nákvæmlega mikilli orku.

Mest verður virkjað á SV-horninu

Þegar rýnt er í þá virkjunarkosti sem eru í nýtingarflokki sést að langflestir þeirra eru á suðvesturhorni landsins.

Spurður hvort þetta sé eðlilegt svarar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Við höfum bent á að verið sé að taka mjög stórar ákvarðanir um friðun vatnasviða á Norðurlandi án þess að fara í greiningu á því hvaða áhrif þetta getur haft samfélögin á þessu svæði. Með þessu er mögulega verið að takmarka mjög uppbyggingu á Norðurlandi. Þetta getur haft áhrif á  iðnaðaruppbyggingu, orkuskipti og orkuöryggi á svæðinu.

Við skulum hafa í huga að verkefnisstjórnin er eingöngu ráðgefandi nefnd. Henni er óheimilt að taka ákvarðanir þó hún hafi reyndar ítrekað gert það í ferlinu með því að taka ákvörðun um leggja ekki fullt af kostum fyrir stjórnvöld."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.