Jarðvarmi slhf., sem er í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, hefur nýtt forkaupsrétt sinn til kaupa á 53,9% hlut í HS Orku af Innergex ásamt því að kaupa 12,7% hlut fagfjárfestasjóðsins ORK í félaginu, samkvæmt tilkynningu frá Jarðvarma. Þámun Ancala Partners, erlendur samstarfsaðili Jarðvarma í framhaldinu kaupa 50% hlut í HS Orku á móti Jarðvarma. Fyrir átti Jarðvarmi 33,4% hlut í HS Orku. Samtals er um að ræða kaup á 66,6% hlut í HS Orku. Samanlagt kaupverð hlutanna er um 47 milljarðar króna.

Samhliða þessu mun nýtt félag, Blávarmi slhf., sem er í eigu sömu lífeyrissjóða og Jarðvarmi eignast 30% hlut HS Orku í Bláa Lóninu. Kaupverð eignarhlutarins er um 15 milljarðar króna.

Áður en til þessara viðskipta kom hafði Innergex samið um sölu á hlutum í HS Orku með fyrirvara um forkaupsrétt Jarðvarma. Sem fyrr segir ákvað Jarðvarmi að virkja forkaupsrétt sinn og leysa hlutinn til sín á sama verði og samið hafði verið um í þeim viðskiptum. Ráðgjafar Jarðvarma í þessum viðskiptum voru Arctica Finance, SKR lögfræðiþjónusta og Advel lögmenn. Ancala Partners er breskt sjóðastýringarfyrirtæki sem sérhæfir sig í evrópskum innviðafjárfestingum.

Davíð Rúdólfsson stjórnarformaður Jarðvarma og Blávarma, segir að með þessum viðskiptum skapast stöðugleiki um eignarhald á HS Orku til framtíðar. „Sérfræðiþekking Ancala á sviði endurnýjanlegrar orku og sameiginleg sýn okkar á þau tækifæri sem eru til staðar fyrir HS Orku til lengri tíma gerir Ancala að ákjósanlegum meðeiganda. Fram undan eru spennandi tækifæri við frekari uppbyggingu HS Orku. Þá er Bláa Lónið kjölfesta í íslenskri ferðaþjónustu sem hefur byggt upp sterkt alþjóðlegt vörumerki. Uppbygging síðustu ára skapar tækifæri til enn frekari vaxtar sem eigendur Blávarma hyggjast taka fullan þátt í,“ segir Davíð.

Lee Mellor, meðeigandi Ancala Partners fagnar samstarfinu við Jarðvarma. „Í rekstri HS Orku deila Ancala og Jarðvarmi sameiginlegri hugmyndafræði þar sem áhersla er lögð á stuðning við stjórnendur, frekari fjárfestingar og samstarf til langs tíma. HS Orka er ákjósanlegur grunnur til að vinna að frekari verkefnum á hinum áhugaverða vettvangi endurnýjanlegrar orku á Íslandi.  Við hlökkum til samstarfsins við Jarðvarma og við stjórnendur HS Orku,“ er haft eftir Mellor í tilkynningunni.

Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku, segir fagnaðarefni að söluferlinu sé lokið. „Félagið verður í eigu tveggja öflugra og traustra hluthafa sem hafa skýr áform um stuðning við það og uppbyggingu þess til langframa. Jarðvarmi hefur verið hluthafi í félaginu frá árinu 2011 og stutt það afar vel.  Við hlökkum til samstarfs við hluthafana við áframhaldandi uppbyggingu og rekstur félagsins.  Viðskiptin eru enn fremur jákvæður vitnisburður um þróun félagsins og það góða starf sem hæft starfsfólk okkar vinnur,“ segir Ásgeir.

HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins með um 8% af framleiddri raforku, og það stærsta í einkaeigu. Rekstrartekjur félagsins árið 2018 voru 8,9 milljarðar króna.