Líklegt er að sérverslanir með áfengi verði opnaðar hér á landi verði frumvarp Vilhjálms Árnasonar um afnám einkasölu ríkisins á áfengi að veruleika. „Maður sér það í hendi sér að ef frumvarpið fer í gegn opnast tækifæri fyrir sérverslanir, alveg á nákvæmlega sama hátt og á öðrum mörkuðum þar sem verslun er frjáls,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Hann telur líklegt að fyrirkomulag sölu verði líkara því sem þekkist víða hvar erlendis, eins og til dæmis í Kaupmannahöfn.

Undir þetta tekur Vilhjálmur Árnason, flutningsmaður frumvarpsins. Hann segir nokkra aðila hafa haft samband við sig og lýst hugmyndum sínum um opnun slíkra verslana. Þá sjái lítil brugghús sér leik á borði að fá sjálf að selja vöru sína og þurfa ekki að reiða sig á ÁTVR í þeim efnum.

Gæti styrkt starfsemi sælkeraverslana

Sælkeraverslanir sem Viðskiptablaðið hafði samband við líta frumvarpið jákvæðum augum. „Ég held að við höfum verið langspenntastir af öllum þegar frumvarpið var kynnt,“ segir Jón Óskar Karlsson, verslunarstjóri Sælkerabúðarinnar Bitruhálsi. „Við styðjum frumvarpið 110%. Það eru mjög margir sem koma í búðina og finnst mjög svekkjandi að geta ekki keypt vín með ostunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .