Þingnefnd í New Brunswick fylki í Kanada fjallar um þessar mundir um hvort nauðsynlegt sé að herða reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Ástæðan er fjölmiðlaveldi Irving-fjölskyldunnar, þeirrar sömu og hugðist á sínum tíma hefja samkeppni við íslensku olíufélögin. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Irving-fjölskyldan á öll dagblöðin þrjú sem gefin eru út á ensku í New Brunswick. Að auki á hún nokkur vikublöð sem ýmist eru gefin út á ensku eða frönsku.

Erin Steuter, félagsfræðingur sem hefur rannsakað samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, sagði við þingnefndina að mikilvægt væri að fjölmiðlar endurspegluðu ólík sjónarmið. Íbúar í New Brunswik fengju hins vegar aðeins eina hlið á sumum málum, til dæmis varðandi umdeildar gasleiðslur Irving í St. John og einnig varðandi skattabreytingar sem Irving-fjölskyldan hefði hagsmuni af.

Marie-Linda Lord, prófessor í fjölmiðlafræði, sagði að Irving-veldið hefði markvisst hrakið aðra af fjölmiðlamarkaðinum. Hún lagði til við þingnefndina að sett yrði á fót óháð eftirlitsstofnun með fjölmiðlum.

Victor Mlodecki, framkvæmdastjóri fjölmiðla Irving, sagði fráleitt að félagið bolaði öðrum af markaði. Viðskiptaleg sjónarmið hefðu ráðið því að félagið keypti fleiri fjölmiðla.

David Tkachuk, varaformaður þingnefndarinnar, segir að Irving hafi einokunarstöðu á dagblaðamarkaði. Hann undrast að samkeppnisyfirvöld hafi ekki tekið þennan markað til sérstakrar skoðunar.

Jim Munson, sem einnig á sæti í nefndinni, telur að samþjöppun hafi komið niður á gæðum fjölmiðlanna. Hann segir mikilvægt að koma á fót einhvers konar aðhaldi, til dæmis með embætti umboðsmanns neytenda eða eftirlitsstofnun, sem vaktaði vinnubrögð fréttamanna. Munson er fyrrverandi fréttamaður.

Gert er ráð fyrir að þingnefndin skili af sér endanlegum tillögum í júní.

Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu 27. apríl 2005.