*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 6. október 2019 11:02

Járnblendið malar gull

Hagnaður Elkem á Grundartanga ríflega fjórfaldaðist og nam um 2,7 milljörðum íslenskra króna.

Ritstjórn
Gestur Pétursson sem hefur verið forstjóri Elkem Ísland frá árinu 2014, en starfað fyrir járnblendið allt frá árinu 2010, var ráðinn sem forstjóri Veitna í sumar, en þá var sagt að síðar myndi skýrast hvenær hann taki við nýja starfinu.
Haraldur Guðjónsson

Á síðasta ári ríflega fjórfaldaðist hagnaður járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga, úr 44,1 í 197 milljónir norskra króna, sem samsvarar nú um 2.681 milljón íslenskra króna. Tekjur félagsins jukust um tæplega 37%, úr tæplega 1,2 í 1,6 milljarða norskra króna, en rekstrargjöldin jukust um ríflega 23%, úr 1,1 í tæplega 1,4 milljarða norskra króna.

Eiginfjárhlutfallið lækkaði, úr 84,1% í 82,3%, samhliða 27% aukningu skulda, úr 302,6 í 385,2 milljónir norskra króna og 12,4% aukningu eiginfjár, úr 1,6 í 1,8 milljarða norskra króna. Eignir félagsins í heild hækkuðu úr 1,9 í 2,2 milljarða norskra króna, eða sem nemur tæplega 15%.

Handbært fé frá rekstri félagsins ríflega fimmfaldaðist milli ára, úr 47,5 milljónum árið 2017 í 260,1 milljón norskra króna á síðasta ári. Fór handbært fé félagsins úr 353,7 milljónum króna í ársbyrjun í 634,6 milljónir í árslok.

Á sama tíma varð margfaldur viðsnúningur í fjárfestingarhreyfingum félagsins, sem voru jákvæðar um 30,9 milljónir á síðasta ári en höfðu verið neikvæðar um 185,7 milljónir árið 2017. Fjármögnunarhreyfingar félagsins helminguðust á árinu úr neikvæðum 20,8 milljónum í 10,3 milljónir norksra króna.

Gestur Pétursson var framkvæmdastjóri Elkem Ísland ehf., á síðasta ári, en norska félagið Elkem ASA er eini hluthafi félagsins.