Umsókn um heimild til losunar á koldíoxíði barst í gær til Umhverfisstofnunar frá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, viku of seint, en eins og skýrt var frá í Viðskiptablaðinu síðastliðinn þriðjudag skilaði verksmiðjan ekki inn umsókn um heimild til losunar innan tilskilins tíma. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Að sögn Hávars Sigurjónssonar, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, tekur stofnunin ekki afstöðu til þess hvort umsókn Járnblendiverksmiðjunnar verði tekin til greina. Stofnunin vísar öllum umsóknunum til úthlutunarnefndar losunarheimilda með umsögnum. Nefndinni er falið það hlutverk að úthluta losunarheimildum til atvinnurekstrar á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.


Heildarkvóti Íslands í losun koldíoxíðs á árunum 2008 til 2012 er 10.800.000 tonn samkvæmt Kyoto-samkomulaginu. Fyrirtækin sem sóttu um fyrir tilskilinn tímafrest voru Alcoa-Fjarðarál, sem sótti um fyrir álver á Bakka við Húsavík fyrir árin 2011 og 2012, samtals 365.000 tonn, og fyrir álverið við Reyðarfjörð til að losa 504 000 tonn á ári.


Sementsverksmiðjan á Akranesi sótti um að losa 170 000 tonn á ári. Alcan sótti um fyrir álverið í Straumsvík að losa 2.478.442 tonn á öllu tímabilinu og 940.287 tonn fyrir álver í Þorlákshöfn árin 2011 og 2012. Norðurál sótti um fyrir álverið á Grundartanga að losa á tímabilinu 2.229.000 tonn og 2.229.000 tonn fyrir álver í Helguvík árin 2010-2012.


Ekki fékkst uppgefið hjá Umhverfisstofnun hvað Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga sótti um að fá að losa mikið en verksmiðjan losaði árlega tímabilið 2000-2005 á milli 355.000 og 390.000 tonn.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinuí dag.