Nýverið fékk Fljótsdalshreppur að gjöf frá ítalska verktakafyrirtækinu Impregilo eina þeirra lesta sem notuð var við jarðgangagerð við Kárahnjúkavirkjun.

Um er að ræða eimreið með vagni sem notuð var til þess að flytja grjót út úr aðrennslisgöngum virkjunarinnar.

Með lestinni fylgdu einnig nokkurra metra langir lestarteinar og stendur hún á þeim við Végarð þar sem Landsvirkjun hefur undanfarin ár verið með sýningu á því sem tengist Kárahnjúkavirkjun og virkjanaframkvæmdunum.

„Við höfðum samband við Impregilo og föluðumst eftir að fá hjá þeim eins og eina lest. Því var vel tekið og höfum við nú fengið lest afhenta,“ segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps í tilkynningu.

„Kárahnjúkavirkjun er ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og því þykir okkur mikilvægt að halda eftir einhverjum minjum um verkefnið. Lestin er mjög táknræn fyrir hversu veigamiklar þessar framkvæmdir voru enda var flutt grjót með henni fleiri tugi kílómetra út úr fjallinu.“

Lestin er stærst þeirra lesta sem notaðar voru við jarðgangagerðina en yfir 70 km af göngum tengjast Kárahnjúkavirkjun. Lestirnar fluttu grjót úr þeim göngum sem voru sprengd. Stór hluti þeirra var einnig boraður með þremur risaborum sem Impregilo flutti sérstaklega til landsins en þar var grjótið flutt úr göngunum eftir færiböndum.

Við Végarð stendur einnig einn af borskerunum sem voru framan á risaborunum og gefst gestum þar tækifæri á að sjá hversu gríðarstór tæki er um að ræða. Á sýningu Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun i Végarði er líkan af risaborunum „og það er aldrei að vita nema það líkan verði áfram til sýnis með lestinni og borskeranum,“ segir Gunnþórunn í tilkynningunni.

Hún bætir við að Landsvirkjun eigi eða hafi aðgang að fjölda mynda, sem sýna sögu framkvæmdanna og eru ómetanlegar heimildir.

Væntanlega verði myndunum fundinn góður varðveislustaður og í framtíðinni verði þær aðgengilegar fyrir þá sem kynna vilji sér framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar.

Gunnþórunn segir óljóst hvar umræddir gripir, og aðrar minjar sem tengjast Kárahnjúkavirkjun, verði í framtíðinni, en vilji sé fyrir því innan sveitarfélagsins að þeir verði til sýnis og aðgengilegri gestum og gangandi. Hvort það verði í og við Végarð eigi eftir að koma í ljós.