Margrét Thatcher var tvímælalaust einn eftirminnilegasti og áhrifamesti stjórnmálamaður liðinnar aldar. Um það hljóta menn að vera sammála, hvað annað sem þeim kann um hana að finnast, en það segir sína sögu hve ákaflega er deilt um arfleifð hennar nú, hartnær aldarfjórðungi eftir að samherjar hennar hröktu hana frá völdum.

Thatcher var margslunginn stjórnmálamaður, en fyrst og síðast var hún þjóðrækinn Englendingur og Breti. Hún hafði fastmótaðar hugmyndir um hvað væri rétt og rangt í samfélagi manna, hvar almannavaldið þyrfti að láta til sín taka og hvar það ætti að eftirláta einstaklingunum að ráða vegferð sinni sjáfir. Hún var sannfærð um að Bretar væru í senn með einstakan þjóðarkarakter og hlutverk, en jafnframt að þjóðin hefði villst af leið á eftirstríðsárunum. Það einsetti hún sér að færa til betri vegar.

Hafnaði hnignun Bretlands og sneri taflinu við

Thatcher var ekki ein um það álit að Bretland væri í hnignun, það var viðtekin skoðun á þessum árum, þar sem stríðið hafði unnist og heimsveldið tapast. Um leið hafði landið aldrei náð sér efnahagslega á strik eftir heimsstyrjöldina og fór halloka í samkeppni við önnur og ný iðnveldi. Flestir stjórnmálamenn í öllum flokkum virtust líta svo á að það væri hlutverk þeirra að sjá til þess að þessi hnignun færi skipulega fram og í sem mestum friði, væri því við komandi.

Að þessu leyti skar Thatcher sig úr fjöldanum, því hún hafði trú á því að Bretar gætu komist á skrið aftur og berið í fremstu röð á alþjóðavettvangi á nýjan leik. Á þeim árum þótti mörgum það óraunhæft, broslegt jafnvel, en aðrir létu í ljós andúð á þessari væmnu ættjarðarást frúarinnar, sem margir muldruðu um að mætti rekja til þess að hún væri af almúgafólki komin.

Nánar er fjallað um Thatcher í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.