Einar Númi Sveinsson verkfræðingur mun flytjast búferlum til San Francisco í Bandaríkjunum snemma á næsta ári þar sem hann mun starfa fyrir ráðgjafar- og stefnumótunarfyrirtækið Strategic Decisions Group (SDG). Áður starfaði Einar Númi meðal annars hjá fjárfestingarbankanum Askar Capital og við fyrirtækjaráðgjöf hjá H.F. Verðbréfum. Hann er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet og M.Sc. í rekstrar- og fjármálaverkfræði frá Stanford í Bandaríkjunum.

„Ég byrjaði að vinna hjá þeim snemma á þessu ári og hef þá verið að sinna verkefnum hér í Evrópu, en þeir eru búnir að vera að vinna í því að klára atvinnuleyfi fyrir mig í Bandaríkjunum á meðan. Ég mun svo flytja út til San Francisco í febrúar á næsta ári,“ segir Einar Númi og kveðst fullur tilhlökkunar yfir þessari nýju áskorun.

Spurður hvað hann bralli utan vinnunnar segir Einar Númi að síðasta árið hafi markast að miklu leyti að því að hann hafi verið plataður til þess að taka þátt í Iron Man í Kaupmannahöfn. „Ég fór í það með félaga mínum og við kláruðum það saman í ágúst. Þetta er 3,8 kílómetra sund í sjó, 180 kílómetra hjólreiðar og svo maraþon í lokin. Þetta er því einhver svona allsherjarviðbjóður og þetta var helvíti stíf þjálfun á tímabili en mjög skemmtileg.“

Nánar er spjallað við Einar Núma í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .