„Einhvern vegin vann allt á móti mér og ég hugsaði mér að loka staðnum. En nú ætla ég að kaupa húsið og ætla að halda rekstri Goldfinger áfram,“ segir Jaroslava Davíðsson, eigandi skemmtistaðarins Goldfinger í Kópavogi. Fyrir helgi stefndi í að staðnum yrði lokað nú í vikunni en Landsbankinn, sem á húsið, ætlaði ekki að framlengja leigusamningi við Jaroslövu.

Jaroslava er ekkja Ásgeirs Davíðssonar, þekktur sem Geiri í Goldfinger, en hann setti staðinn á laggirnar. Geiri lést fyrir aldur fram vorið 2012. Hann var 62 ára að aldri. Félag Geira og fjölskyldu hans sem átti húsið sem Goldfinger var úrskurðað gjaldþrota rétt fyrir jólin 2012. Það er nú í eigu Landsbankans.

Húsið hefur um nokkurt skeið verið til sölu og er sett á það einar 60 milljónir króna. Jaroslava hefur gert tilboð í húsið og ætlar sér að eignast það enda stutt síðan hún endurnýjaði rekstrarleyfi Goldfinger til næstu fjögurra ára.

„Svona staður verður að vera til á Íslandi enda er þetta staður fyrir fólk sem vill eiga val,“ segir Jaroslava í samtali við VB.is.