Guðmundur A. Birgisson, oft kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi og einn af fyrrverandi eigendum Lífsvals, var í Héraðsdómi Suðurlands í byrjun mánaðar dæmdur í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir stórfelld skilasvik og peningaþvætti. Alls kom Guðmundur um 300 milljónum króna undan skiptum þegar hann varð gjaldþrota.

Meðal þess sem sem hann kom undan skiptum voru íbúð á Alicante og tvær íbúðir við Central Park í New York. Þá voru þar á ferð listaverk eftir hollenska málarann Corneille og hlutur í bandarískum fjárfestingasjóði.

Við skýrslutöku með skiptastjóra í byrjun árs 2014, bú Guðmundar hafði verið tekið til skipta undir árslok 2013, veitti hann ekki upplýsingar um téðar eignir. Í kjölfar málareksturs vestanhafs komst þrotabúið yfir eignirnar og fengust fyrir þær tæplega 287 milljónir króna þegar skuldir vegna þeirra og kostnaður við söluna hafði verið greiddur.

Skiptastjóri þrotabúsins kærði háttsemina til saksóknara í maí 2015 og ekki var tekin skýrsla af Guðmundi fyrr en rúmlega þremur árum síðar. Ákæra var gefin út í maí á þessu ári, það er fimm árum eftir að skiptastjóri tilkynnti um brotið.

Fyrir dómi játaði Guðmundur brot sín. Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til játningarinnar. Með vísan til þess hve mikið málið hafði dregist þótti unnt að binda hana skilorði og fellur hún niður að tveimur árum liðnum verði það haldið.