*

sunnudagur, 24. október 2021
Erlent 23. febrúar 2021 10:22

Jay-Z selur LVMH helming í spaðaás-víninu

Kampavínsfyrirtæki Jay-Z seldi 500.000 Armand de Brignac kampavínsflöskur árið 2019 en hver þeirra kostar á bilinu 300-900 dali.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Lúxusrisinn LVMH hefur náð samkomulagi um kaup á hlemingshlut í Armand de Brignac, kampavínsfyrirtæki rapparans Jay-Z. Með samstarfinu er vonast til að sölunet LVMH, sem á kampavínin Veuve Clicquot og Krug, geti hljápað Armand de Brignac, gullitaða kampavíninu sem er merkt spaðaás, að vaxa enn frekar víðs vegar um heiminn. 

Jay-Z, sem heitir raunverulega Shawn Carter, keypti allt hlutafé í kampavínsframleiðandanum árið 2014. Kampavínið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og náð til nýs markaðshóps í kampavínsheimnum með „truflandi“ (e. disruptive) markaðsstarfi, líkt og Philippe Schaus, framkvæmdastjóri víndeildar LVMH orðaði það í viðtali hans og Jay-Z við CNBC

Armand de Brignac seldi 500.000 kampavínsflöskur árið 2019, en hver flaska kostar á bilinu 300-900 dali, samkvæmt frétt FT. Sala LVMH á víni nam 4,8 milljörðum evra árið 2020, sem er um 15% samdráttur frá fyrra ári. 

Sneri baki við uppáhalds kampavínið sitt vegna ummæla forstjórans

Á árum áður var kampavínið Cristal í uppáhaldi hjá Jay-Z. Hann vitnaði í kampavínið í laginu „Hard Knock Life“ og voru Cristal flöskurnar svo áberandi á tónleikum kappans að margir héldu að kampavínsframleiðandinn væri að kosta viðburðina. Jay-Z sneri þó baki við Cristal eftir ummæli Frédéric Rouzaud forstjóra þess við Economist árið 2006 sem rapparinn taldi vera rasísk. 

Í því viðtali hafði Rouzaud, spurður hvort tengsl Cristal við rappið sköuðuðu ímynd þess, svarað: „Góð spurning, en hvað getum við gert? Við getum ekki bannað fólki að kaupa það. Ég er viss um að Dom Pérignon eða Krug yrðu hæstánægð að fá viðskipti þeirra“.

Seinna sama ár gaf Jay-Z út myndband við lagið Show Me What You Got þar sem hann hafnar Cristal flösku en tekur í staðinn við gulllitaðri flösku merkta spaðaásnum. Rúmum átta árum síðar eignaðist hann spaðaás-kampavínsframleiðandann. 

Stikkorð: LVMH Jay-Z Cristal