Nýlega bárust tilboð frá tveimur fjárfestum sem hafa áhuga á að eignast og reka Kaupthing Bank Luxembourg. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins voru þessi tilboð betri en það sem hafði áður borist frá  líbýskum fjárfestingasjóði.

Nú hafa stjórnendur bankans og skiptastjóri valið það tilboð sem þeim þykir best með tilliti til krafna lánadrottna og áframhaldandi reksturs bankans eins og kemur fram í bréfi þeirra til kröfuhafa og viðskiptavina bankans. Það tilboð sem þótti best kom frá breska fjárfestinum Blackfish Capital sem er í eigu Rowland-fjölskyldunnar. Mun tilboð þeirra vera bindandi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bauð einnig Fjárfestingarfélagið J.C. Flowers & Co í starfsemina.

Eftir því sem komist verður næst eru næstu skref að leggja fram formlegt tilboð til lánadrottna bankans sem munu í kjölfarið taka afstöðu og sem fyrr þá þarf samþykki frá a.m.k. helmingi lánadrottna, bæði með tilliti til fjárhæðar og fjölda.

Það var fjárfestingarfélagið J.C. Flowers & Co, sem seldi Kaupþingi hollenska bankann NIBC um mitt ár 2007. Á síðasta ári sóttist það eftir að kaupa breska bankann Northern Rock en félagið hefur sérhæft sig í að koma inn í félög á erfiðleikatímum. Skömmu áður hafði félagið fallið frá 26 milljarða Bandaríkjadala tilboð sitt í heildsölubankann Sallie Mae.