Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði áherslu á að stjórnmálamenn myndu vinna meira saman og líta á vandamál út frá rökum. Hann sagði vandamálið vera að það væru ekki allir Framsóknarmenn. Sigmundur sagði að nú væri pólitíkin komin aftur í gömlu hugmyndafræðina og vandamál stjórnmálamanna vera pólitíkina sjálfa.

Þetta koma fram á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í dag þar sem flokkarnir komu saman í pallborði og ræddu um tillögur viðskiptaráðs og framtíðina.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði þessar tillögur Viðskiptaráðs vera góðar og að þær gætu hafa verið teknar beint upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar. Árni Páll lagði áherslu á rótarmeinið, gjaldmiðilinn, sem hinir flokkarnir vildu ekki ræða alvarlega. Hann sagði að það þyrfti að vinna í þeim málum sérstaklega í ljósi þess að fjölskyldur væru kikna í hnjánum undan þungum verðtryggðum lánum.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, fjallaði um mikilvægi þess að setja ekki öll eggin í eina körfu. Efla þurfi nýsköpun, tækni- og þekkingargreinar eins og CCP. Það ætti að búa til alvöru hagvöxt en ekki skuldsettan bóluhagvöxt.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að nýsköpunin þyrfti líka að verða til í pólitíkinni. Nú þyrfti stjórnmálaafl til að eyða ágreiningi og að líta þurfi á ólík viðhorf sem kost.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri ekki nóg að bæta hagkvæmni hjá einkafyrirtækjum heldur einnig í ríkisrekstri. Hætta þyrfti að ráðast á grunnatvinnugreinar eins og til dæmis sjávarútveginn. Hann sagðist vilja sjá tímabil stöðugleika og vaxtatímabil.