Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, hefur verið valinn maður ársins hjá Financial Times. Í viðtali við FT kom fram að Trichet telur Seðlabanka Evrópu og evruna hafa tekist gífurlega vel og að árangurinn af evrunni sé í samræmi við þær væntingar sem stofnendur hennar höfðu. Trichet segir ennfremur að bankinn hafi sannað sig vel í þeim erfiðleikum sem gengið hafa yfir á markaði að undanförnu. Bankinn hafi í þessum erfiðleikum reynst fær um að taka skjótar ákvarðanir, sem hafi verið öfugt við skoðun manna á bankanum á þeim tíma.

Trichet var spurður að því hvers vegna Seðlabanki Evrópu hafi ekki farið sömu leið og seðlabankar Bandaríkjanna og Englands, að lækka vexti til að örva efnahagslífið. Hann svaraði því til að bankinn hefði þá ábyrgð að halda verði stöðugu og að til að ná því markmiði, miðað við hættu á hærri verðbólgu, hefði verið nauðsynlegt að halda uppi vöxtum.

Jean-Claude Trichet er fæddur árið 1942 og var bankastjóri Frakklandsbanka, seðlabanka Frakklands, áður en hann tók við sem seðlabankastjóri evrusvæðisins árið 2003.