*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Erlent 27. júlí 2017 16:01

Jeff Bezos orðinn ríkasti maður heims

Töluverð hækkun á gengi hlutabréfa Amazon á þessu ári hefur gert Jeff Bezos að ríkasta manni heims.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Jeff Bezos stofnandi og forstjóri Amazon varð í dag ríkasti maður heims samkvæmt lista Bloomberg. Hlutabréfaverð Amazon hækkaði um 1,3% við opnun markaða í Bandaríkjunum og varð það til þess að Bezos skaust fram úr Bill Gates sem ríkasti maður heims. Er Bezos metinn á 90,9 milljarða dollara á meðan Gates er metinn á 90,7 milljarða dollara.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi hlutabréfa Amazon hækkað um 2,52% í dag og ef fram fer sem horfir mun Bezos verða ríkasti maður heims við lokun markaða í New York. Yrði það í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem Bill Gates missir stöðu sína sem ríkasti maður heims.  Það skal þó tekið fram að til síðustu áramót hafði Gates gefið 31,1 milljarð dollara af auði sínum til góðgerðamála. 

Það sem af er ári hefur gengi hlutabréfa Amazon hækkað um 43,5%. Hefur hækkunin orðið til þess að eingir Bezos hafa aukist um rúmlega 25 milljarða dollara á þessu ári en hann á um 17% hlut í fyrirtækinu. Samkvæmt greiningaraðilanum Michael Pachter er Amazon Prime þjónusta Amazon helsta ástæðan fyrir góðu gengi fyrirtækisins. Þá hefur skýþjónusta Amazon einnig gengið vonum framar. Segir Pachter að hlutabréfaverð Amazon muni koma til með að hækka enn frekar og ráðleggur hann fjárfestum að kaupa bréf fyrirtækisins. 

Stikkorð: Bill Gates Jeff Bezos Amason