Japansbanki ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5% í gær sökum þeirrar ólgu sem ríkt hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það var fastlega gert ráð fyrir þessari niðurstöðu af sérfræðingum, en fyrir aðeins fjórum vikum síðan var það hins vegar mat flestra - eða um 70% greiningaraðila - að vextir yrðu hækkaðir í 0,75%. Ummæli seðlabankastjóra Japansbanka, Toshihiko Fukui, þegar hann rökstuddi ákvörðun stjórnar bankans benda þó til þess að bankinn sé reiðubúinn til að hækka vexti í næsta mánuði, enda þótt enn muni gæta titrings á hlutabréfamörkuðum. Skiptar skoðanir eru á meðal markaðsaðila um líkurnar á stýrivaxtahækkun þann 19. september næstkomandi, en ríflega helmingur þeirra hefur veðjað á slíka hækkun.

Japansbanki er fyrsti seðlabanki aðildarþjóða G8 iðnríkjanna svokölluðu sem tekur stýrivaxtaákvörðun frá því að vandræðin á fjármálamörkuðum hófust sökum vanskila á áhættusömum fasteignalánum (e. subprime) í Bandaríkjunum. Aðeins einn stjórnarmaður af níu - Atsushi Mizuno - greiddi atkvæði með stýrivaxtahækkun.

Á fjölmiðlafundi í gær sagði Fukui að peningamálastefna Japansbanka tæki mið af eigin mati bankans á stöðu efnahagsmála og verðlagsþróunar í landinu; bankinn léti ekki aðgerðir annarra seðlabanka, þar á meðal þess bandaríska, hafa áhrif á ákvörðunartöku sína. Sumir sérfræðignar benda hins vegar á að það yrði erfitt fyrir bankann að ráðast í stýrivaxtahækkun strax í næsta mánuði ef svo fer - líkt og margir búast við - að Seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti 18. september.

Mesta lækkun jensins gagnvart evru í þrjú ár
Fukui sagði að þrátt fyrir óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarin misseri væru horfur í japönsku efnahagslífi engu að síður góðar: von er á áframhaldandi hagvexti, framleiðsluaukningu fyrirtækja og vaxandi einkaneyslu almennings. Nýjar hagtölur sýna jafnframt að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi hafi hækkað á milli ársfjórðunga í tíunda skiptið í röð.

Ákvörðun Japansbanka um að halda óbreyttum stýrivöxtum hafði auk þess töluverð áhrif á hlutabréfavísitölur og gengi jensins en veiking þess gagnvart evrunni í viðskiptum í gær var sú mesta á einum degi í þrjú ár, en lækkunin nam um 1,8%. Sökum væntinga um að vaxtamunarviðskipt muni taka við sér að einhverju marki á næstunni, seldu fjárfestar lágvaxtamyntir á borð við jenið og keyptu hávaxtamyntir eins og ástralska og nýsjálenska dollarann, sem hækkuðu í kjölfarið um 3% gagnvart jeninu. Nikkei hlutabréfavísitalan hækkaði um 2,61% í kauphöllinni í Tókýó og nam lokagildi hennar 16.316 stig.