Japanska jenið hefur ekki verið sterkara gagnvart Bandaríkjadal í þrjá mánuði. Styrking gjaldmiðilsins kemur illa út fyrir útflutning frá Japan, en hlutabréfavísitalan í Nikkei kauphöllinni lækkaði um 1,1 í kjölfar styrkingarinnar. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem vísitalan lækkar, en hún hefur lækkað um 4,5% í vikunni.

Flestar hlutabréfavísitölur í Asíu lækkuðu í morgun. Mögulegt er að aukinn hræðsla sé í álfunni vegna vetnissprengju sem N-Kórea sprengdi í morgun . Hang Seng vísitalan í Hong Kong féll um 0,9%, Kospi vísitalan í Suður-Kóreu féll um 0,5%.

Fram kemur í morgunpósti greiningardeildar IFS að seðlabanki Kína hafi veikt júanið, en það hefur ekki verið lægra í um fimm ár. Gjaldmiðillinn lækkaði um 0,6% á frjálsum markaði í Hong Kong og einnig í Sjanghæ. Samsetta vísitalan í Sjanghæ hækkaði um 0,7% í viðskiptum dagsins, en talið er líklegt að fjárfestar séu þó varir um sig vegna mikilla verðlækkana, og lokunar kauphalla, á mánudaginn.