Nú stendur yfir stofnfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Á fundinum leiða Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Samtök fiskvinnslustöðva saman hesta sínum í nýjum samtökum. Jens Garðar Helgason var sá eini sem bauð sig fram til formanns hinna nýju samtaka, en tilkynnt var á fundinum áðan að hann hefði náð kjöri.

Jens er fæddur og uppalinn á Eskifirði 1976, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og stundaði nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands 1997 - 2000. Hann hóf störf hjá Fiskimiðum ehf. á Eskifirði, sem sérhæfir sig í útflutningi á fiskimjöli og lýsi, árið 1999. Jens Garðar tók við starfi framkvæmdastjóra Fiskimiða árið 2001 og gegndi því fram á þetta ár. Jens Garðar er einnig formaður bæjarráðs í Fjarðarbyggð.