Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þykir koma til greina sem næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.  Anders Fogh Rasmussen,  fyrrverandi forsætisráðherra Dana, lætur af embætti framkvæmdastjórans síðar á árinu.

Bæði dagblöðin VG og Aftenposten segjast hafa heimildir fyrir því úr norska Verkamannaflokknum að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi stungið upp á Stoltenberg. Þá segist Aftenposten einnig hafa fyrir því heimildir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, styðji hann í starfið.

Aftenposten segir að líklegast verði búið að ráða nýjan framkvæmdastjóra fyrir aðalfund Atlantshafsbandalagsins í september. „Það er gott að nafn manns er nefnt í þessu samhengi, en það þýðir ekki að ég ætli að staðfesta að ég gefi kost á mér í starfið,“ sagði Stoltenberg í dag.