Í dag verður úrskurðað fyrir rétti hvort ákvörðun framkvæmdastjórnar Verkamannaflokksins í Bretlandi um að leyfa formanni flokksins, Jeremy Corbyn, að bjóða sig fram aftur til formanns án tilskylinna meðmæla þingmanna.

Þarf meðmæli 20% þingmanna flokksins

Vellauðugur stuðningsmaður Verkamannaflokksins, Michael Foster, kærir ákvörðunina og segir formanninn þurfa að fá meðmæli 51 þingmanns, eða 20% þingmanna flokksins, á breska og evrópska þinginu til að geta boðið sig fram líkt og keppinautur hans, Owen Smith.

Ef Michael Foster, sem hefur verið fjárhagslegur bakhjarl samtakanna Lögmenn fyrir verkamannaflokkinn (Lawyers for Labour), vinnur málið í dag, verður Smith sjálfkrafa kjörinn formaður þegar úrslitin verða kunngjörð þann 24. september næstkomandi, sem væri farsi að mati stuðningsmanna Corbyn.

„Það væri lagalegt vandamál, ef framkvæmdastjórnin, eftir að hafa sagt að Jeremy ætti að vera á kjörseðlinum, yrði þar svo ekki. Þá væri það best fyrir framkvæmdastjórnina að minnsta kosti að enduropna meðmælaferlið,“ segir heimildarmaður sem stendur formanninun nærri við PoliticsHome.

Flokksmenn útilokaðir frá að kjósa

Fleiri málsóknir hafa verið gerðar á hendur ferlinu, en hópur félagsmanna í flokknum hefur kært þá ákvörðun að hindra kosningu 130 þúsund kjósenda í kosningunum. Framkvæmdastjórnin ákvað að einungis þeir sem hefðu gengið í flokkinn fyrir 12. janúar síðastliðinn gætu kosið, nema þeir greiddu 25 punda stuðningsgjald.

Sú ákvörðun er talin henta keppinauti Corbyns, þar sem ungt fólk sem gengið hafi til liðs við flokkinn á síðustu mánuðum styður hann frekar en Smith.